Pennaveski
Rannsóknarverkefnið Pennaveski var unnið af nýútskrifuðum vöruhönnunarnema, Guðrúnu Kolbeinsdóttur í samstarfi við Þvottahús Landspítalans, undir leiðsögn hönnunarstofunnar Fléttu. Markmiðið með verkefninu var að finna farveg fyrir textíl sem fellur til við Landspítalann, stærsta vinnustað landsins. Meginástæður fyrir úreldingu textíls við Landspítalann eru þrjár: Blettir, blek og slit. Flokkurinn blek vakti mikla athygli en þar er orsakavaldurinn pennar í vösum. Eftir vettvangsferðir, kortlagningu textílsins og efnistilraunir var ákveðið að sauma töskur þar sem leikið er með orðið „pennaveski.“ Töskurnar innihalda bæði flokkana slit og blek og eru sjö talsins. Blek í hvítum textíl og litapalletta spítalaklæðnaðar er haft í fyrirrúmi. Ásamt því að sauma töskur úr textíl spítalans var einnig unnið vídjóverk til að sýna ferlið. Veskin eru tilraun til þess að vekja athygli á textílnum sem er úreltur vegna penna sem leynast í vösum starfsmanna LSH, í áþreifanlegri hönnun.